Reiði í garð Fox News

Blóm og kerti við ströndina þar sem siglt er til …
Blóm og kerti við ströndina þar sem siglt er til Utøya. Reuters

Norska blaðið Aftenposten segir, að margir notendur samskiptamiðlanna Facebook og Twitter hafi á undanförnum dögum lýst mikilli óánægju með umfjöllun bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar Fox News um hryðjuverkaárásirnar í Noregi. 

Segir Aftenposten, að þótt Norðmaðurinn Anders Behring Breivik hafi játað á sig árásirnar haldi fréttamenn Fox áfram að vísa til hryðjuverka múslima og fjalla um að Norðmenn hafi gert lítið úr alþjóðlegri hryðjuverkahættu, sem steðji að landinu.

Þannig hafi fréttamaðurinn Christian Whiton sagt að vandamál margra Evrópuríkja sé að þau telji að ef þau eru hlutlaus í stríðinu gegn hryðjuverkum verði þau ekki skotmörk. Það sé hins vegar ekki rétt og vitað sé að hryðjuverkasamtökin al-Qaeda og önnur íslömsk hryðjuverkasamtök hafi Norðurlönd í sigtinu.  

Margir netverjar segja, að áhugi Fox á málinu virðist hafa dvínað mikið eftir að ljóst varð hver bakgrunnur Breiviks er og ástæður hans fyrir ódæðinu hafa komið fram. 

Þá hefur bandaríski útvarpsmaðurinn Glenn Beck valdið hneykslun með umfjöllun sinni um málið. Hann var með eigin sjónvarpsþátt á Fox þar til í júní en stýrir áfram daglegum útvarpsþætti sem útvarpað er víða um Bandaríkin.

Beck mun hafa sagt, að sumarbúðir ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins í Utøya minni á Hitlersæsku þýsku nasistanna.

„Það var skotárás á pólitískar búðir, sem minna, þið vitið, svolítið á Hitlersæskuna. Ég meina, hver rekur sumarbúðir fyrir ungmenni þar sem fjallað er um stjórnmál? Þetta veldur áhyggjum," sagði Beck, að því er kemur fram á vef Daily Telegraph.

Vefur Aftenposten

Vefur Daily Telegraph

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert