Segir Breivik vera geðsjúkan

Geir Lippestad, verjandi Anders Behrings Breiviks, segir að allt bendi til þess, að skjólstæðingur hans sé geðsjúkur.

„Hann telur sig vera að heyja stríð og í stríði séu svona hlutir réttlætanlegir," sagði Lippestad við fjölmiðla í dag. „Hann telur að umheimurinn skilji hann ekki en muni gera það eftir 60 ár." 

Þá sagði Lippestad að erfitt væri að lýsa Breivik. „Hann er ekki eins og við hin. Það er eins og hann sé í eigin heimi." 

Hann sagði, að Breivik hefði neytt lyfja til að „styrkja sig og halda sér vakandi," áður en hann lét til skarar skríða á föstudag.  

„Hann hét að hann yrði drepinn eftir sprenginguna, eftir árásina á eyjunni og hann hélt líka að hann yrði drepinn í dómssalnum," sagði Lippestad. „Hann var raunar undrandi yfir að sér hefði tekist þetta."

Lippestad svaraði því neitandi, þegar hann var spurður hvort Breivik hefði sýnt einhverja iðrun yfir að hafa myrt fjölda ungmenna.  

Breivik hefur sagt Lippestad, að tvær hermdarverkasellur séu starfandi í Noregi og fleiri í útlöndum. Breivik hefur ekki viljað veita nánari upplýsingar um þessar sellur en að þær geti skipulagt árásir.  Lippestad staðfesti, að ástæðan fyrir því að dómþingið í gær, þar sem fjallað var um gæsluvarðhaldskröfu lögreglunnar, var lokað, hafi verið sú að óttast var að Breivik kynni ella að koma á framfæri boðum til hugsanlegra samverkamanna sinna. 

Lippestad tók fram að hann tæki ekki við neinum fyrirmælum frá Breivik og sagði að einhver yrði að axla það hlutverk að verja hann. 

Geir Lippestad ræddi við fjölmiðla í Ósló í morgun.
Geir Lippestad ræddi við fjölmiðla í Ósló í morgun. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert