Fréttaskýring: Til höfuðs fjölmenningarstefnunni

Framan af tuttugustu öld var hlutfall innflytjenda í Noregi lágt. Á síðustu áratugum aldarinnar tók þetta að breytast og voru margir fylgjandi þeirri breytingu, meðal annars með þeim rökum að það væri mannúðarstefna í verki að gera fólki brotnu af erlendu bergi kleift að setjast að í landinu.

Noregur hefur, líkt og Ísland, verið einsleitt og samheldið þjóðfélag þar sem þorri íbúanna er norrænn í útliti. Þótt trúfrelsi ríki hafa flestir Norðmenn játað kristna trú og kristin kirkja verið lykilstofnun í þjóðlífinu.

Sjá ógn í breytingunum

Eftir því sem innflytjendum af öðrum menningarsvæðum, sem aðhyllast önnur trúarbrögð, fjölgar tekur einsleitnin smátt og smátt að víkja fyrir flóknari og margbreytilegri veruleika. Og eins og verða vill eiga sumir erfiðara með að fóta sig í nýjum veruleika en aðrir. Þegar óttinn við hið óþekkta tekur völd líður ekki á löngu þar til fordómar, andúð og jafnvel hatur skýtur rótum í hjörtum þeirra sem sjá ógn í hinu nýja samfélagsmynstri.

Þessi þróun er ekki einskorðuð við Noreg. Mörg Evrópuríki hafa reynt sambærilega þróun. Skýran vitnisburð um það má e.t.v. finna í góðu gengi stjórnmálaflokka sem gera út á andúð gegn því sem þeir kalla innflytjendastraum og vandamál sem þeir segja að honum fylgi.

Tekið skal fram að eftirtaldir flokkar eru ólíkir innbyrðis og taka stefnumálin mið af aðstæðum í hverju landi. Þá fer því fjarri að hugtakið fjölmenningarsamfélag eigi við öll löndin í ýtrustu merkingu. (Til einföldunar má skilgreina fjölmenningarstefnu svo að hún feli í sér að ekki megi hampa einni samfélagsgerð eða menningu á kostnað annarra.)

Andstaða í einhverri mynd við óbreytta stefnu í innflytjendamálum tengir þó eftirtalda flokka og réttlætir það e.t.v. að spyrða þá saman í stuttri yfirlitsgrein.

Bylgjan tekur að rísa

Skemmst er að minnast góðs gengis Sannra Finna í þingkosningunum í Finnlandi í apríl. Flokkurinn var ótvíræður sigurvegari kosninganna og stóð uppi sem þriðji stærsti flokkur landsins með um 19% atkvæða. Vildi flokkurinn meðal annars herða skilyrði fyrir ríkisborgararétti og að búið skyldi svo um hnútana að innflytjendum sem kæmust ítrekað í kast við lögin yrði vísað úr landi.

Hinum megin við landamærin unnu Svíþjóðardemókratar góðan sigur í þingkosningunum í fyrrahaust. Flokkurinn á rætur að rekja til öfgahreyfingarinnar Svíþjóð fyrir Svía og var rifjað upp í kosningabaráttunni að á tíunda áratug síðustu aldar hefðu félagar enn birst í nasistabúningum á flokksfundum.

Liðsmenn flokksins líta svo á að svokölluð pólitísk rétthugsun hamli opinskárri umræðu um málefni innflytjenda. Ögrun er því hluti orðræðunnar og hikaði Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata, ekki við að tengja glæpi við innflytjendur í kosningabaráttunni.

Sunnar í álfunni vann Þjóðfylkingin, þjóðernisflokkur Jean-Marie Le Pen í Frakklandi, góðan sigur í sveitarstjórnarkosningunum í fyrravor. Rætt var um upprisu flokksins eftir að hann fékk 12% greiddra atkvæða. Dóttir stofnandans, Marine Le Pen, hefur byr í seglin og mældist með jafnvel meiri stuðning en Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti þegar henni var stillt upp sem valkosti í könnun í tilefni forsetakosninga á næsta ári.

Þessi bylgja hefur risið hvað hæst í Hollandi. Þar hefur Geert Wilders, einn umdeildasti stjórnmálamaður Evrópu á síðari tímum, verið fengsæll á miðum andstöðunnar við innflytjendur.

Andvígir íslömskum áhrifum

Meint útbreiðsla íslamskrar menningar í Evrópu er rauður þráður í málflutningi Wilders, sem fer nú fyrir þriðja stærsta stjórnmálaflokki Hollands. Kosið var til þings í Hollandi í fyrra og varð útkoman sú að flokkur Wilders styður minnihlutastjórn hægriflokksins VVD og Kristilegra demókrata.

Í þessari upptalningu verður ekki hjá því komist að geta góðs gengis Framfaraflokksins í Noregi í síðustu þingkosningum. Flokkurinn hlaut þá 22% atkvæða og jók fylgið frá kosningunum þar á undan.

Málefni innflytjenda hafa einnig komið við sögu í dönskum stjórnmálum og hefur umræða um þau leitt til þess að eftirlit á landamærunum hefur verið hert.

Þessi upptalning er langt í frá tæmandi. Nefna mætti fleiri nýleg dæmi úr evrópskum stjórnmálum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert