Varar við djúpri kreppu

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, varar við djúpri efnahagskreppu ef bandaríska þinginu tekst ekki að hækka skuldaþak ríkisins. Þetta kom fram í sjónvarpsávarpi Obama í gærkvöldi. Hvatti hann bandarísku þjóðina til þess að krefjast þess að repúblikanar gæfu eftir svo hægt verði að ná sátt í málinu. Að öðrum kosti sé hætta á greiðslufalli ríkissjóðs.

Bandaríkjaþing hefur eina viku til stefnu til þess að ná samkomulagi um hækkun skuldaþaks ríkissjóðs. Að öðrum kosti getur ríkissjóður ekki tekið lán til þess að greiða af eldri lánum. Sagði Obama í ávarpinu í gær að viðræðurnar sem hafa staðið yfir vikum saman milli fulltrúa Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins séu hættulegur leikur sem landið hafi ekki efni á að leika.

Á sama tíma og Obama flutti ávarp sitt um eittleytið í nótt að íslenskum tíma, lækkaði gengi Bandaríkjadals á markaði í Tókýó og hefur ekki verið veikari gagnvart jeni í meira en fjóra mánuði þegar jarðskjálftinn mikli reið yfir Japan.

Ríkisstjórn Obama telur að ef ekki tekst að hækka skuldaþak ríkissjóðs, sem nú er 14,3 billjónir dala (e. trillion) þýði það aukið atvinnuleysi. Repúblikanar hafa ekki viljað samþykkja niðurskurð sem þýðir hækkun skatta. Ef ekki tekst að ná samkomulagi þá þýðir það að bandaríska ríkið getur ekki tekið lán nema á hærri vöxtum en nú er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert