Vélhjólagengi slíðra sverðin

Reuters

Um eitt þúsund meðlimir í norskum vélhjólagengjum sem lengi hafa eldað saman grátt silfur sömdu um fordæmalaust vopnahlé í dag til þess að geta vottað þeim sem létu lífið í skotárásinni á Útey á föstudaginn virðingu sína.

Meðlimir í gengjum eins og Hell's Angels og Outlaws óku hlið við hlið niður að strönd stöðuvatnsins Tyrifjorden þar sem Útey er staðsett og lögðu þar meðal annars blóm. Var atburðurinn skipulagður á Facebook samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar.

„Þessir hópar eru engir vinir. Undir venjulegum kringumstæðum myndu þeir berjast en við ákváðum að hér yrðu stjórnmálin lögð til hliðar og allir stæðu saman,“ sagði Henrik Bauer Larsen, einn vélhjólamannanna, við fréttamann AFP. Vopnahléið yrði þó ekki varanlegt.

Larsen sagði að einhverjir í öllum gengjunum þekktu einhvern eða einhverja sem hefðu orðið fyrir skotárásinni á Útey. Þeir hafi viljað koma á staðinn og votta þeim sem létust virðingu sína og fjölskyldum þeirra.

Lögreglumenn á vélhjólum sáu til þess að meðlimir vélhjólagengjanna kæmust leiðar sinnar og gætu lagt hjólum sínum og gengið niður að vatninu. 

„Þetta er stærsta vélhjólareið í sögu Norðurlandanna. Fólk hefur komið hingað alls staðar að í Skandinavíu og fólk sem hefur verið í ferðalögum hefur slegist í för með okkur á leiðinni. Við vildum bara sýna samúð okkar,“ sagði Larsen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert