Nærri 300 manns var bjargað í báta eða þau syntu sjálf til lands á flótta úr harmleiknum á Utøya í Noregi á föstudaginn var. Magne Rustad, aðalvarðstjóri í lögreglunni í Nordre Buskerud, greindi frá þessu á blaðamannafundi í dag.
„Allar tölur eru svolítið ónákvæmar. En við vitum að ýmsir bátar í einkaeigu björguðu um 250 manns úr vatninu. Þar til viðbótar eru þeir sem gátu synt í land og þeir sem bjargað var um borð í ferjuna. Samtals eru þetta um 300 manns,“ sagði Rustad í samtali við Aftenposten.
Ýmsir persónulegir munir hafa fundist á botni Tyrifjarðar, vatnsins sem Utøya er í. Leit með smákafbáti og báti með leitartæki heldur áfram. Enn er eins saknað sem var í eynni.