Sexán ára gömul stúlka, Julie Bremnes, sendi móður sinni textaskilaboð á fimm mínútna fresti þar sem hún hafði leitað sér skjóls á bak við klett á strönd eyjunnar á meðan Anders Behring Breivik skaut á allt sem fyrir varð í Utøya á föstudag. Bað hún móður sína um að láta lögregluna flýta sér þar sem fólk sé að deyja allt í kringum hana.
46 skilaboð á 75 mínútum
Alls sendi hún 46 skilaboð á 75 mínútum til móður sínnar Marianne Bremnes sem reyndi að hughreysta dóttur sína eftir bestu getu. Þakkar stúlkan móður sinni að hún hélt lífi en móðir hennar ráðlagði henni að halda kyrru fyrir bak við klettinn.
„Julie hringdi fyrst í mig klukkan 17:10 og sagði mamma það er brjálaður maður sem er að skjóta hérna. Hún bað mig um að hringja í lögregluna og ég bað hana um að senda mér textaskilaboð á fimm mínútna fresti svo ég vissi að hún væri á lífi," Marianne Bremnes í samtali við VG Nett.
Þegar Julie hringdi fyrst var Breivik nýbyrjaður að skjóta á ungmennin í eyjunni. Eftir að Julie hafði lokið samtalinu við móður sína hljóp hún niður á strönd og óð út í á flótta undan Breivik. En í stað þess að leggjast til sunds faldi hún sig bak við klett á ströndinni þar sem fleiri ungmenni höfðu falið sig. Þar biðu þau þar áhöfn á bát kom og sagði að Breivik hefði verið handtekinn og óhætt væri fyrir þau að koma úr felum.