Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segir að viðbrögð Norðmanna við hryðjuverkaárásunum á föstudag verði „aukið lýðræði."
Sagði Stoltenberg á blaðamannafundi í Ósló í morgun, að Normenn muni verja sig með því að sýna, að þeir óttist ekki ofbeldismenn.
Þá sagði Stoltenberg, að öfgasinnaðar skoðanir eigi rétt á sér, en ekki, að koma þeim á framfæri með ofbeldi. Hann sagði jafnframt, að mögulegt væri að hafa opið þjóðfélag og jafnframt að gæta fyllsta öryggis og gera sér grein fyrir hættum, sem að steðji.
Á blaðamannafundinum sagði Stoltenberg, að norsk stjórnvöld muni yfirfara og endurmeta stöðu þjóðaröryggismála í kjölfar atburðanna á föstudag.
„Eftir rannsóknina og eftir að við höfum huggað þá sem misstu ástvini sína, verður tímabært að fara yfir þá reynslu, sem við höfum öðlast," sagði Stoltenberg. Það vakti athygli, að hann nefndi aldrei nafn Anders Behrings Breiviks, sem játað hefur á sig hermdarverkin á föstudag.
Lögregla og öryggisþjónustur í Noregi hafa sætt gagnrýni fyrir hvað langan tíma það tók fyrir sérsveitarmenn, að komast til Utøya þar sem Behring Breivik gekk um og skaut á ungmenni.
Sérfræðingar hafa sagt, að svo virðist sem Breivik hafi komið sprengju, sem sprakk skömmu áður við stjórnarráðsbyggingar í Ósló, fyrir til að beina athygli lögreglu þangað svo hann fengið næði til að athafna sig í eyjunni.