Vissu fljótt að Breivik var sekur

Ummerki eftir sprenginguna í Ósló á föstudag.
Ummerki eftir sprenginguna í Ósló á föstudag. Reuters

Lögreglan í Ósló vissi innan þriggja stunda frá því sprengja sprakk við stjórnarbyggingar í borginni klukkan 15:26 á föstudag, að Anders Behring Breivik hefði komið sprengjunni þar fyrir.

Fram kemur á vef Aftenposten, að myndir úr öryggismyndavélum við stjórnarbyggingarnar sýndu skráningarnúmer á bílnum sem Breivik kom sprengjunni fyrir í. Lögreglan fékk upplýsingar um númerið frá varðmönnum í byggingunni og hafði samband við eigandann, sem er fjármögnunarleiga. Þetta fyrirtæki hafði samband við bílaleiguna Avis, sem leigði bílinn út.  

Anders Tveit, framkvæmdastjóri Avis, staðfestir við blaðið, að fyrirtækið hafi sagt lögreglu að Breivik hefði leigt bílinn og annan bíl, sem hann notaði til að aka til Utøya. Þar skaut hann tugi ungmenna til bana.

Klukkan 14:09, einni stundu og 17 mínútum áður en sprengjan sprakk sendi Behring Breivik rúmlega 1500 síðna stefnuskrá sína með tölvupósti til 1003 viðtakenda víðsvegar í Evrópu. Breska blaðið Daily Telegraph segir, að 250 þeirra búi í Bretlandi.

„Þetta er gjöf (...) ég bið ykkur um að senda þessa bók til allra sem þið þekkið," skrifaði Breivik í tölvupóstinum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert