Lögregla í Noregi segist ætla að yfirheyra Anders Behring Breivik að nýju á morgun um hryðjuverkin, sem hann framdi í Ósló og á Utøya. 76 létu lífið í árásunum.
Til þessa hefur Breivik aðeins verið yfirheyrður einu sinni og tók yfirheyrslan sjö stundir. Pål Fredrik Hjort Kraby, lögfræðingur hjá lögreglunni í Ósló, sagði á blaðamannafundi í Ósló í dag að Breivik verði yfirheyrður að nýju á morgun en ekki kom fram hvað lögreglan ætlaði að spyrja hann um.
Að sögn norska ríkisútvarpsins NRK hefur leit verið hætt við Utøya. Lögregla hefur birt nöfn á 17 þeirra, sem létu lífið í árásunum. Stjórnvöld í Georgíu sögðu í morgun, að lík konu frá Georgíu, sem saknað var eftir skotárásina á Utøya, hefði nú fundist. Konan hét Tamta Liparteliani en lík hennar fannst í vatninu við eyjuna. Hafði hún verið skotin í bakið.