„Ég er eins og fuglinn Fönix“, segir forseti Venesúela, Hugo Chavez, en hann er 57 ára í dag.
Chavez, sem er að jafna sig eftir krabbamein í ristli, segir að honum líði eins og hann hafi verið endurfæddur. Þrátt fyrir krabbameinsmeðferð ætlar Chavez að bjóða sig fram til endurkjörs á næsta ári. Hann hefur gegnt embætti forseta síðan árið 1999. Kjörtímabil forseta Venesúela er sex ár.
Chavez eyðir deginum með nánustu fjölskyldu og vinum en stuðningsmenn ætla að koma saman og fagna afmælinu á götum úti í höfuðborginni Caracas.
Á vísindavef HÍ segir svo um fuglinn Fönix var stór, fallegur sagnafugl sem var sagður getað lifað í 500 ár. Þegar fuglinn fann að tími var komin á það að hann skyldi deyja þá flaug hann til Egyptalands, bjó þar til hreiður og lagði eld að því. Úr öskunni átti svo að rísa nýr Fönix. Því er hann stundum kallaður eldfuglinn. Í sögum er einnig sagt frá því að rautt egg myndist í öskunni og úr því rísi nýr eldfugl.