Öfgatrúar gyðingar hentu pokum með illa lyktandi vökva að göngufólki í árlegri gleðigöngu í Jerúsalem og hótuðu þeim vítiseldum í dag. Kom þó ekki til meiriháttar ofbeldis í göngunni.
Að sögn lögreglu var einn maður handtekinn samstundis þegar hann kastaði pokum fullum af vökva í göngufólk. Var göngunni beint frá helstu hverfum þar sem íhaldssömustu gyðingarnir búa í borginni. Engu að síður var lítill hópur mótmælenda sem hélt á skiltum sem á stóð „Samkynhneigðir, það er beðið eftir ykkur í helvíti“. Aðrir höfðu með sér asni til merkis um að samkynhneigð væri dýrsleg athöfn.
Telur lögregla að um þrjú þúsund manns hafi tekið þátt í göngunni en þúsund manna lögreglulið gætti öryggis göngufólk.
Árið 2005 stakk öfgatrúaður gyðingur þrjá þátttakendur í göngunni og var dæmdur í tólf ára fangelsi í kjölfarið. Telja öfgamennirnir gönguna vera fyrirlitlega og að hún vanhelgi borgina sem þeir telja heilaga.