Eftir að Anders Behring Breivik var handtekinn á Utøya í Noregi á föstudag var hann hafður í haldi í byggingu á eyjunni á meðan lögregla rannsakaði svæðið en óttast var að Breivik hefði komið fyrir sprengjum. Á meðan reyndi Breivik að semja við lögregluna, að sögn norska ríkisútvarpsins NRK.
Breivik var hafður í haldi í aðalbyggingunni á eyjunni eftir að hann var handtekinn klukkan 18:27 á föstudagskvöld. Þá hafði hann myrt 68 manns á eyjunni, aðallega ungmenni.
NRK segir, að á meðan tveir lögreglumenn gættu Breivik í húsinu hafi lögregla og sjúkralið veitt fórnarlömbum skyndihjálp og reynt að fá yfirsýn yfir ástandið. Lögregla þurfti m.a. að rannsaka ýmsa hluti, sem Breivik hafði hengt í tré en óttast var að það væru sprengjur.
NRK segir að Breivik hafi notað tímann og reynt að semja við lögregluna. Hann setti fram ýmsar kröfur
Blaðið Aftenposten segir, að lögregla hafi nú fengið í hendur nokkur myndskeið úr öryggismyndavélum sem sýni athafnir Breiviks í Ósló á föstudag. Myndirnar eru af torginu þar sem Breivik kom fyrir sprengju og vegum út úr Ósló.
Blaðið segist hafa fengið það staðfest, að lögreglan hafi fengið í hendur myndir þar sem Breivik sjáist á torginu rétt áður en sprengjan sprakk klukkan 15:26 á föstudag.