Glaður að vera á lífi

Adrian Pracon, sem slapp lifandi úr skotárásinni á Utøya fyrir réttri viku, kveðst vilja fara aftur til eyjarinnar til að binda endi á martröðina sem hann varð fyrir.

Norðmenn eru enn að reyna að jafna sig á versta hryðjuverki sem þar hefur verið unnið frá því í síðari heimsstyrjöldinni. Alls voru 76 myrtir í tveimur árásum, flestir þeirra á unglingsárum. 

Einn þeirra sem lifði árásirnar af segist vilja fara aftur til litlu eyjarinnar þar sem skotið var á hann, svo hann geti haldið áfram með líf sitt.

„Ég vil sjá staðinn sem ég var á og þar sem og þar sem ég reyndi að flýja. Ég vil semja frið við þessa eyju og hætta að halda í það sem gerðist,“ sagði Adrian Pracon, sem komst lífs af úr Utøya.

Pracon var í sumarbúðunum á Utøya þegar Anders Behring Breivik fór að skjóta á fólkið og myrti 68 manns. Pracon fékk skot í öxlina og gekkst undir tvær skurðaðgerðir. Hann gleðst yfir því að vera á lífi og telur að yfirvöld hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð við erfiðar aðstæður. 

„Það hefur verið stórkostlegt hvernig lögreglan, hvað þeir komu fljótt á staðinn í ljósi þess að það var árás í Ósló og allt lögregluliðið var sent þangað. Og hvað þeir voru fljótir til baka. Líka hvað þeir voru fljótir að virkja liðið og ná tökum á ástandinu,“ sagði Pracon.

Ódæðismaðurinn Breivik gafst strax upp fyrir lögreglunni. Hann kveðst tilheyra hryðjuverkahópi sem berst gegn útbreiðslu íslam. Lögreglan telur að Breivik hafi verið einn að verki. 

Norska ríkisstjórnin ætlar að láta endurskoða öryggisþjónustu landsins og viðbragð hennar við árás Breiviks eftir gagnrýni hópa sem segja að of seint hafi verið brugðist við skotárásinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert