Mistök flugmanna í feigðarför

Flugriti sem skráði samtöl flugmannanna náðist af hafsbotni.
Flugriti sem skráði samtöl flugmannanna náðist af hafsbotni. Reuters

Flugmönnum Air France urðu á mörg mistök áður en flugvél þeirra, sem var á leið frá Ríó til Parísar, fórst árið 2009. Alls fórust 228 í flugslysinu, þeirra á meðal einn Íslendingur. Hluta mistakanna má rekja til ónógrar þjálfunar, að því er rannsóknarmenn upplýstu í dag.

Flugmennirnir brugðust ekki rétt við þegar Airbus þotan tók að missa flughæð eftir að hraðanemar hennar biluðu. Þá skorti þjálfun til að bregðast við bilun hraðanemanna, að því er frönsk rannsóknarnefnd flugslysa (BEA) sagði í dag.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um flugslysið segir m.a. að flugmennirnir „gerðu sér ekki formlega grein fyrir missi flughæðar“ þrátt fyrir að viðvörunarmerki þar um hafi hljómað í meira en mínútu.

Air France kom flugmönnum sínum strax til varnar og sagði að  kerfi sem varaði við missi flughæðar hafi bilað. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem var birt í sama mund og skýrsla rannsóknarnefndarinnar í dag.

Í skýrslunni kemur fram að hraðanemarnir, sem kallaðir eru Pitots, hafi bilað í flugferðinni aðfaranótt 1. júní 2009. Air France skipti um alla hraðanema á Airbus flugvélum sínum fyrir nýja gerð, en hraðanemarnir voru smíðaðir af franska fyrirtækinu Thales.

Bæði Air France og Airbus sæta nú rannsókn vegna ákæru um meint manndráp í tengslum við flugslysið. 

New York Times greinir frá því að rannsóknarnefndin hafi krafist margra verulegra breytinga á þjálfun flugmanna til að gera þá hæfari til að bregðast við vandamálum sem koma upp við flug í mikilli flughæð. 

Ráðleggingar í þessa veru eru sagðar styðja ábendingar utanaðkomandi sérfræðinga um að alvarleg mistök flugmannanna hafi valdið því að flugvélin, Airbus A330-200, missti flugið og hrapaði 38.000 fet í hafið. 

Reiknað er með að endanlegar niðurstöður rannsóknarinnar verði ekki birtar fyrr en snemma á næsta ári. Atriði sem rannsóknarnefndi benti á gefa til kynna að flugmennirnir tveir, sem voru við stjórnvölinn þegar vandamálið kom upp, hafi aldrei fengið þjálfun í að fljúga flugvélinni handvirkt.

Þá hafi þeir ekki heldur fengið kennslu um hvernig þeir ættu að greina og bregðast við bilun í hraðanemum í mikilli hæð, hvort tveggja var lífsnauðsynlegt að kunna og hefði getað forðað slysinu, að sögn sérfræðinganna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert