Fjöldamorðin í Noregi sem kostuðu 76 lífið í síðustu viku voru árás á lýðræðið í Noregi, segir Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, er hann ávarpaði minningarathöfn Verkamannaflokksins í dag. Meðal gesta er Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra Íslands.
Áður en Stoltenberg ávarpaði minningarathöfnina minntust gestir fórnarlamba Anders Behring Breivik í Utøya og miðborg Óslóar á föstudag með mínútu þögn.
Á sama tíma og minningarathöfnin stóð yfir var Bano Rashid, átján ára jarðsungin í Nesodden en hún er eitt fórnarlamba Breivik í Utøya. Hún var virk í hreyfingu ungliða í Verkamannaflokknum í heimabæ sínum Nesodden. Rashid flutti til Noregs árið 1996 ásamt fjölskyldu sinni en þau flúðu frá Írak.
Eftir að Jens Stoltenberg flutti ávarp sitt tók Eskil Pedersen, leiðtogi ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins, til máls. Hann segir að unglingahreyfingin verði alltaf kennd við 22. júlí. Í ár voru þau saman í Utøya á þeim degi og á næsta ári verða þau saman á sama stað. Þegar Pedersen lauk máli sínu lyftu allir gestir upp rauðri rós, sameiningartákni í sorg Norðmanna.