Rósatollur felldur niður í Noregi

Rósir hafa verið áberandi í sorgarviðbrögðum Norðmanna við hryðjuverkunum fyrir …
Rósir hafa verið áberandi í sorgarviðbrögðum Norðmanna við hryðjuverkunum fyrir viku síðan. Fólk hefur lagt rósir til minningar um hina látnu og farið í rósagöngur. Reuters

Norsk yfirvöld hafa ákveðið að afnema toll af rósum hvaðan sem er úr heiminum í vikutíma, frá 26. júlí til 2. ágúst. Þetta er gert að tillögu blómasala í Noregi. 

Sigrun Pettersborg, yfirráðunautur við Landbúnaðarstofnun ríkisins, segir að sérstakar aðstæður í landinu og gríðarleg spurn eftir rósum sé ástæða þess að tollar séu felldir niður í vikutíma. Þetta kemur fram hjá ABC Nyheter.

Norskir framleiðendur og innflutningur frá tollfrjálsum svæðum fullnægir ekki eftirspurninni.

Pettersborg sagði að norskir rósabændur geti útvegað allt að 150.000 rósir á viku en eftirspurnin sé mun meiri. Hún sagði að borist hafi einstakar pantanir upp á 80.000 rósir. 

Venjulega er fullur tollur 249% af virði rósarinnar. Tollurinn er settur til að vernda norska rósaræktun. 

Blómabúðirnar Mester Grønn ætla að gefa ágóðann af rósasölunni til Rauða krossins. Interflora-blómabúðirnar í Noregi leggja ágóðann í sérstakan sjóð á vegum fyrirtækisins sem styrkir mannúðarmál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert