Neitar að ræða við norska sálfræðinga

Synne Sørheim og Torgeir Husby hefur verið falið að leggja …
Synne Sørheim og Torgeir Husby hefur verið falið að leggja mat á sakhæfi Breiviks. Scanpix

Norski hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik á að gangast undir geðrannsókn en hann vill ekki tala við hvern sem er. Að sögn blaðsins Aftenposten neitar hann að ræða við tvo norska réttarsálfræðinga, sem héraðsdómur í Ósló hefur tilnefnt til að gera rannsóknina.

Dómurinn hefur falið Torgeir Husby og Synne Sørheim að leggja mat á hvort Breivik sé sakhæfur. Reynist svo ekki vera er ekki hægt að dæma hann til fangelsisvistar fyrir hryðjuverkaárásirnar þar sem 77 létu líifð heldur verður honum gert að dvelja á réttargeðdeild í ótiltekinn tíma. 

Geðrannsóknin fer þannig fram, að sakborningurinn ræðir við sálfræðingana. Pål-Fredrik Hjort Kraby, lögmaður hjá lögreglunni í Ósló, segir við blaðið, að Breivik hafi gefið til kynna að hann vilji ekki ræða við norska réttarsálfræðinga.

Þau Husby og Sørheim eru meðal reyndustu réttarsálfræðinga í Noregi. Þau eiga að skila niðurstöðu sinni fyrir 1. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert