Orrustuflugvélar NATO gerðu í gærkvöldi loftárásir á þrjá sjónvarpssenda í Líbíu með það að markmiði að stöðva „hryðjuverkaútsendingar" stjórnar Múammars Gaddafis, einræðisherra landsins.
NATO sagði í tilkynningu í morgun, að þrír sjónvarpssendar líbíska ríkissjónvarpsins í Tripoli hefðu verið eyðilagðir. Tilgangurinn væri að draga úr möguleikum Gaddafis til að nota gervihnattasjónvarp til að ógna líbísku þjóðinni og hvetja til ofbeldisverka gegn henni.
Miklar sprengingar kváðu við í Tripolí í nótt, að sögn blaðamanns AFP í borginni. Nær daglegar loftárásir hafa verið gerðar á borgina undanfarna mánuði.