Árangur í viðræðum um skuldaþak

Embættismenn segja, að náðst hafi umtalsverður árangur í viðræðum Hvíta hússins í Washington og repúblikana á Bandaríkjaþingi í viðræðum um deilu um skuldaþak bandaríska ríkisins.

Embættismennirnir segja, að viðræðurnar snúist um að hækka skuldaþakið um 2,4 billjónir dala og jafnframt um að skera útgjöld ríkisins niður í tveimur áföngum um svipaða fjárhæð. 

Þá er rætt um að Bandaríkjaþing greiði atkvæði um breytingartillögu við stjórnarskrá Bandaríkjanna sem kveði á um að fjárlög skuli vera hallalaus. Samkomulagið sé hins vegar ekki háð því að tillagan verði samþykkt.   

Ná þarf samkomulagi um að hækka skuldaþakið fyrir þriðjudag en ella gæti orðið greiðslufall hjá bandaríska ríkinu og það gæti ekki greitt reikninga og laun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert