Írönsk kona, sem er blind á báðum augum eftir að sýru var skvett framan í hana, ákvað í dag að náða árásarmanninn en til stóð að blinda hann í refsingarskyni.
Íranska ríkissjónvarpið sagði í dag, að konan, Ameneh Bahrami, hefði beðið um að hætt yrði við að framfylgja refsingunni, sem maðurinn hafði verið dæmdur til að sæta. Til stóð að blinda manninn á sjúkrahúsi í Teheran í dag en dómur yfir honum var kveðinn upp árið 2009 í samræmi við ákvæði um qesas (auga fyrir auga) í íslömskum sharialögum. Upphaflega átti að framfylgja refsingunni í maí en þá var því frestað án skýringa.
Árásarmaðurinn, Majid Movahedi, skvetti sýru í andlit Bahrami árið 2002 eftir að hún hafði ítrekað hafnað bónorði hans. Bahrami var þá 25 ára að aldri og stundaði nám við háskóla. Bahrami blindaðist og er með mikil ör í andlitinu og víðar á líkamanum. Hún býr nú á Spáni og hefur undanfarin ár gengist undir fjölmargar aðgerðir til að laga lýtin sem sýran skildi eftir.
Bahrami hafði krafist þess að Movahedi verði blindaður og lýsti því yfir, að hún vildi sjálf framfylgja refsingunni. Hún sagði við ISNA fréttastofuna, að hún hefði ákveðið að náða árásarmanninn vegna þess að „Guð talar um qesas í Kóraninum en hann mælir einnig með náðun vegna þess að náðun er ofar qesas," segir hún.
Bahrami sagðist hafa barist fyrir þessum dómi í sjö ár til að sanna, að þeir sem skvetta sýru á annað fólk eigi yfir höfði sér sömu refsingu. „En í dag náðaði ég hann vegna þess að það var réttur minn. Ég gerði það fyrir land mitt því öll önnur lönd fylgdust með því hvað ég myndi gera."
Mannréttindasamtökin Amnesty International létu málið til sín taka og hvöttu til þess að refsingunni yrði ekki framfylgt þar sem um væri að ræða „grimmilega og ómannúðlega refsingu sem jafnaðist á við pyntingar.“