Lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna gæti lækkað

Þótt leiðtogum beggja flokka í Bandaríkjaþingi hafi tekist á 11. stundu í gærkvöldi að ná samkomulagi um að hækka skuldaþak bandaríska ríkisins segja sérfræðingar að enn séu talsverðar líkur á að alþjóðleg matsfyrirtæki muni lækka lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna.

Greiðslufall bandaríska ríkisins, eins og stefndi í að óbreyttu nú um mánaðamótin, hefði haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagslíf í Bandaríkjunum og heiminum öllum. En lækki lánshæfiseinkunnin, sem nú er AAA, gæti það leitt til þess að vaxtakjör Bandaríkjanna versni á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum og jafnframt til hækkandi vaxta innanlands.

Samkomulagið, sem náðist í gærkvöldi, felur í sér að skuldaþak bandaríska ríkisins, sem nú er 14,3 billjónir dala, verður hækkað um 2,4 billjónir. Á móti verða ríkisútgjöld skorin niður um svipaða fjárhæð á næsta áratug.

Gert er ráð fyrir að atkvæði verði greidd í Bandaríkjaþingi um tillöguna síðar í dag.  

„Þótt þetta samkomulag komi í veg fyrir greiðslufall (að minnsta kosti á þessu ári) mun það nær örugglega ekki hindra að Bandaríkin missa AAA einkunn sína," skrifaði Paul Dales hjá Capital Economic's í markaðstilkynningu.

Matsfyrirtækið Standard & Poor's varaði í júli við því, að það muni lækka einkunn Bandaríkjanna nema trúverðug áætlun yrði lögð fram um að draga úr skuldum og fjárlagahalla ríkisins til langs tíma. 

Í samkomulaginu nú er ekki kveðið á um hvaða útgjöld verði skorin niður og niðurskurðurinn kemur ekki til framkvæmda strax.  

Holger Schmieding, hagfræðingur Berenberg Bank, segir að samkomulagið uppfylli líklega ekki kröfur Standard & Poors. Þá kunni matsfyrirtækið Moody's að lýsa því að einkunn Bandaríkjanna verði með neikvæðum horfum.

Moody's lýsti því yfir í síðustu viku, að reikna mætti með því að Bandaríkin myndu standa við skuldbindingar sínar og halda AAA einkunn sinni en hugsanlega yrðu horfurnar skilgreindar neikvæðar.

Henrik Drusebjerg, hagfræðingur hjá Nordea, segir við danska blaðið  Børsen í dag, að Bandaríkin hafi haft einkunnina AAA frá árinu 1917. Því sé hætta á, að gríðarleg viðbrögð verði á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði verði einkunnin lækkuð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka