Fylgi norska Verkamannaflokksins mælist nú yfir 40% í hverri könnuninni á fætur annarri í Noregi. Í könnun, sem Gallup gerði fyrir sjónvarpsstöðina TV2 og birt var í kvöld, mældist fylgi flokksins 40,5% og hefur ekki verið meira í 12 ár í skoðanakönnunum stöðvarinnar.
Fyrir mánuði mældist fylgi flokksins 31,3% og hefur því aukist um 9,2 prósentur. Aðrar kannanir, sem norskir fjölmiðlar hafa birt síðustu daga, hafa sýnt svipaða þróun.
Þessar tölur eiga við um afstöðu þátttakenda til flokka í kosningum til Stórþingsins. Fylgi Verkamannaflokksins mældist ekki jafn mikið þegar spurt var um afstöðu þeirra til flokka í sveitarstjórnakosningum, sem fara fram í september, en margt bendir til það Verkamannaflokkurinn fái þar mesta fylgi sem hann hefur fengið í slíkum kosningum frá árinu 1987.
Fylgisaukning Verkamannaflokksins er einkum talin stafa af því að hryðjuverkaárásin fyrir rúmri viku beindist helst að honum. Þá hefur Jens Stoltenberg, forsætisráðherra, þótt standa sig afar vel við að þjappa norsku þjóðinni saman eftir árásirnar.