„Þú skalt vita að þér mistókst"

Konur fallast í faðma framan við dómkirkjuna í Ósló, þar …
Konur fallast í faðma framan við dómkirkjuna í Ósló, þar sem fjölmargir hafa lagt blóm og kerti til minningar um fórnarlömb árásanna. Reuters

Sextán ára gamall piltur, sem lifði af skotárásina á Utøya í Noregi, birtir opið bréf til árásarmannsins, Anders Behrings Breiviks, í Dagbladet í dag og segir þar að hið góða muni sigra hið illa.

„Við mætum ekki illu með illu eins og þú vildir. Við mætum illu með góðu. Og við erum að sigra," skrifar  Ivar Benjamin Østebø, sem missti fimm nána vini sína í árásinni.

Í bréfinu, sem ber yfirskriftina Kæri Anders Behring Breivik, segir Østebø: „Þú heldur ef til vill að þú hafir sigrað. Ef til vill heldur þú, að þér hafi tekist að eyðileggja Verkamannaflokkinn og allt það fólk um allan heim, sem berst fyrir fjölmenningarsamfélagi, með því að drepa vini mína og flokksfélaga. En þú skalt vita, að þér hefur mistekist." 

Østebø segir síðan í bréfinu, að Breivik lýsi sjálfum sér sem hetju og riddara. „Þú ert engin hetja. En eitt er víst, að þú hefur skapað hetjur. á Utøya,þennan heita júlídag, skapaðir þú einhverjar mestu hetjur sem heimurinn hefur séð, þú sameinaðir fólk um allan heim. Svarta og hvíta, karla og konur, börn og fullorðna, rauða sem bláa, kristna og múslima," skrifar Østebø.

Bréf  Østebøs

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert