Myrtur vegna Facebook skrifa

Reuters

Lögreglan í Malasíu hefur tvo menn í haldi, sem grunaðir eru um að hafa barið mann til bana eftir að hann skrifaði neikvæðar athugasemdir um stúlku, sem hann hafði vingast við á Facebook. Mennirnir eru bræður stúlkunnar.

Hinn tvítugi Mohamad Amran Romli lést af höfuðáverkum á sjúkrahúsi á föstudaginn. Bræðurnir slógu hann ítrekað í höfuðið með mótorhjólahjálmum.

Romli hafði verið vinur stúlkunnar á Facebook um nokkurt skeið, en þegar slettist upp á vinskapinn skrifaði hann neikvæðar athugasemdir um hana og fjölskyldu hennar á Facebook síðu sína.

Hún kvartaði undan þessu við bræður sína, sem boðuðu Romli til fundar í húsasundi á bak við stórmarkað.

Facebook og aðrar samfélagssíður njóta mikillar hylli í Malasíu. Meðalvinafjöldi Malasíubúa á Facebook er 233, en sambærileg tala í Kína er 68 og Japanar eiga að meðaltali 29 vini á Facebook.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert