Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti fyrir stundu málamiðlunarfrumvarp um að hækka skuldaþak ríkisins og hefur greiðslufalli Bandaríkjanna því verið afstýrt. Barack Obama forseti ávarpar þingið innan skamms og skrifar undir lögin. Hækkar skuldaþakið um 2.400 milljarða dala samkvæmt frumvarpinu. Breska ríkisútvarpið BBC segir frá þessu.
Var frumvarpið samþykkt með 74 atkvæðum gegn 26. Þar af greiddu 28 repúblikanar atkvæði með frumvarpinu ásamt 45 demókrötum auk eins óháðs þingmanns. Nítján repúblikanar, sex dómkratar og einn óháður þingmaður greiddu atkvæði gegn því.
Fyrir atkvæðagreiðsluna lofaði Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, í hvað átt frumvarpið væri að stefna og að þingið hefði tekið þátt í mikilvægum rökræðum á undanförnum vikum.
„Saman höfum við fundið nýja leið til að gera hlutina í Washington,“ bætti hann við.
Næst ávarpaði Harry Reid, leiðtogi demókrata, þingið og sagði þó að samkomulagið væri ekki fullkomið þá hefðu Bandaríkin þurft að afstýra því efnahagslega stórslysi sem orðið hefði við greiðslufall.