Ísraelar hafa gengið harðar fram í að rústa heimilum Palestínumanna á Vesturbakkanum á fyrri helmingi þessa árs en áður. Segir mannúðarstofnun Sameinuðu þjóðanna sem sinnir palestínskum flóttamönnum aukninguna viðsjárverða.
Heldur stofnunin því fram að 365 byggingum hafi verið rústað á fyrstu sex mánuðum þessa árs en allt árið 2010 hafi þær verið 431. Um 700 manns hafi hrökklast frá heimilum sínum á þessu ári samanborið við 594 allt árið 2010.
„Helst hefur verið látið til skarar skríða gegn samfélögum sem voru veik fyrir áður eins og bedúína og hirðingja. Í mörgum tilfellum hefur heilu samfélögunum verið tilkynnt um byggingar þeirra verði rifnar. Raunveruleg hætta er því á að þau eyðist alveg,“ segir forsvarsmaður SÞ.
Á niðurrifið sér stað á svæði C en það eru þau 60% Vesturbakkans sem eru algerlega undir yfirráðum Ísraelsmanna en þeir hafa aðeins heimilað að Palestínumenn byggi á einu prósenti af því landsvæði.
Segja Ísraelsmenn að það fari aðeins eftir því hvort tilskilin leyfi séu fyrir hendi fyrir byggingum hvort að þau séu rifin eða ekki. SÞ segja hins vegar að svo virðist sem að niðurrifið beinist að svæðum sem hugsuð séu til að færa út hina svokölluðu landtökubyggð.