11 ára stúlku vísað úr sænskri lest

Lögregla fann í dag 11 ára stúlku, sem vísað var í gær út úr lest í Kumla, milli Örebro og Gautaborgar vegna þess að hún gat ekki framvísað farmiða.

Stúlkan kann litla sænsku. Þegar hún gat ekki framvísað farmiða rak lestarvörður hana út úr lestinni, sem hélt síðan áfram. Síðan kom í ljós að eldri systir stúlkunnar, sem var á salerninu, var með farmiða yngri systur sinnar.

Sænsku járnbrautirnar, SJ, ákváðu í dag að víkja lestarverðinum úr starfi á meðan málið er rannsakað. Segir talsmaður fyrirtækisins ljóst, að ekki hafi verið fylgt reglum en ekki má vísa börnum úr lestum þótt þau geti ekki sýnt farmiða.

Talsmaðurinn segir, að SJ ætli að biðja stúlkuna formlega afsökunar og bjóða henni bætur. Síðan verður málið rætt innan fyrirtækisins. 

Lögregla leitaði í alla nótt að stúlkunni í Kumla. Í morgun kom í ljós, að kona nokkur hafði séð stúlkuna sitja grátandi í undirgöngum og tekið hana með sér heim. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert