Fjögur af ungmennunum, sem sluppu lifandi frá hildarleiknum á Útey í Noreg 22. júlí sögðu sögu sína á norsku sjónvarpsstöðinni TV 2 í kvöld. Einn þeirra er Eskil Petersen, formaður ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins, AUF. Eskil segist hafa haldið að bylting væri hafin í landinu.
Eskil Petersen var með þeim fyrstu sem komust frá eyjunni, en hann komst ásamt fleirum um borð í bátinn, sem flutti Anders Behring Breivik til eyjarinnar. „Við sáum engan nálægt okkur þegar við lögðum frá eyjunni. Við fullvissuðum okkur um það,“ segir Petersen.
Stuttu áður hafði ungmennunum verið safnað saman til að segja þeim frá sprengjutilræðinu í Ósló og þá hófst skothríðin. Behring Breivik var klæddur í lögreglubúning og kynnti sig sem lögregluþjón. Þegar hann hóf síðan að skjóta á fólkið taldi Petersen að bylting væri hafin í landinu og að lögreglan tæki þátt í henni. „Mér fannst eins og ég væri hvergi öruggur,“ segir Petersen.
Vefsíða TV 2