Spænska óeirðalögreglan er að niðurlotum komin eftir að hafa þurft að standa vaktina nánast allan sólarhringinn undanfarna daga til að hefta aðgang mótmælenda að aðaltorginu í Madrid.
Lögreglumenn segja að ekki verði lengur við unað. Yfir 200 óeirðalögreglumenn voru á vakt við Puerta del Sol torgið í dag, þriðja daginn í röð. Fólkið mótmælir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og hvernig tekið hefur verið á efnahagsvandræðum landsins.
Hundruð reiðra Spánverja fylktu liði um borgina í mótmælagöngu og stöðvuðu umferð í miðborg Madridar. Mótmælin hafa staðið yfir meira eða minna frá því í maí og hafa mótmælendur ítrekað reynt að ná valdi á torginu, en þeir hafa verið stöðvaðir af lögreglu.
Stéttarfélag óeirðalögreglunnar hvetur innanríkisráðherra til að bæta vinnuaðstæður lögreglu og bendir á að heimsókn Benedikts páfa standi fyrir dyrum, en hann mun sækja Madrid heim 18. - 21. ágúst. Þörf sé á miklum öryggisviðbúnaði vegna heimsóknar páfa og þar gegni óeirðalögregla stóru hlutverki.
Mótmælendurnir njóta almenns stuðnings spænsku þjóðarinnar, en kannanir sýna að tveir af hverjum þremur Spánverjum eru samþykkir aðgerðum þeirra.