Lækkunin fullkomlega fyrirsjáanleg

Vince Cable, viðskiptaráðherra Bretlands.
Vince Cable, viðskiptaráðherra Bretlands. Reuters

Vince Cable, viðskiptaráðherra Bretlands, segir lækkun lánshæfismats Bandaríkjanna hafa verið „fullkomlega fyrirsjáanlega“ í ljósi langvinnra deilna um hækkun skuldaþaksins vestan hafs.

„Þetta var fullkomlega fyrirsjáanleg afleiðing óreiðunnar sem þingið olli með því að komast ekki að samkomulagi um að hækka skuldaþakið,“ sagði Cable í samtali við Sky News.

„Nú hefur þeim hins vegar tekist það, og staða Bandaríkjanna er nokkuð trygg. Það sem þetta segir okkur um heildarmyndina er það að fjármálamarkaðir beina nú sjónum sínum að lánshæfi ríkisstjórna. Fyrir þremur árum var þeim beint að stöðugleika bankanna,“ sagði Cable.

„Vegna þessa er staða Bretlands nokkuð sterk. Markaðirnir skynja að við höfum yfirvegaða ríkisstjórn, og jafnframt að við erum að ná tökum á hallavandanum og höfum mjög skýra áætlun um hvernig það verður gert,“ bætti hann við.

Þegar talið barst að vandamálum evrusvæðisins, sem umlykja nú Spán og Ítalíu í auknum mæli, sagði Cable: „Lönd evrusvæðisins hafa komið sér upp skynsamlegri áætlun til þess að takast á við vandamálin í suðurhluta álfunnar.“

Hann segir löndin hafa fallist á að Grikkland gæti staðið í skilum, að því gefnu að hluti skulda landsins yrðu afskrifaðar.

Þegar hann var spurður að því hvort hann héldi að Ítalía yrði gjaldþrota sagði hann svo ekki vera. „Ég held að enginn búist í alvöru við því að Ítalía verði gjaldþrota. Staða landsins er töluvert frábrugðin stöðu Grikklands.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert