Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's hefur lækkað lánshæfi Bandaríkjanna úr AAA í AA+ og er þetta í fyrsta sinn sem Bandaríkin hafa ekki hæstu lánshæfiseinkunn.
Að mati Standard & Poor's eru horfurnar fyrir Bandaríkin neikvæðar. Matsfyrirtækið segir að aðgerðir til að takast á við skuldavanda Bandaríkjanna, sem voru samþykktar fyrr í vikunni, gangi ekki nægilega langt.
Lækkun lánshæfismatsins gæti haft neikvæð áhrif á trú fjárfesta á Bandaríkin sem er stærsta efnahagskerfi heims. Skuldavandi Bandaríkjanna er mikill. Atvinnuleysi í landinu er 9,1% og ótti er við að efnahagslíf landsins eigi eftir að taka nýja dýfu.
BBC segir að lækkun lánshæfismatsins sé niðurlægjandi fyrir stjórn Baracks Obama forseta. Áhrifin gætu orðið þau að auka fjármagnskostnað Bandaríkjamanna.
Bandaríkin hafa alla tíð verið með hæstu mögulega einkunnina, AAA. Hin stóru matsfyrirtækin, Fitch og Moody's, hafa ekki breytt lánshæfiseinkunn sinni fyrir Bandaríkin. Kínverska matsfyrirtækið Dagong hafði hins vegar þegar lækkað lánshæfismatið.