Stjórnmálaleiðtogar hafa í dag leitað lausna við versnandi efnahagsástandi í heiminum og vonast til þess að koma í veg fyrir að þróunin í síðustu viku haldi áfram þegar markaðir opna á morgun.
Frakkar og Þjóðverjar hafa kallað eftir því að aðgerðum sem fallist var á á fundi ríkja evrusvæðisins í júlí verði hraðað. Með því er vonast til þess að staða evrunnar styrkist.
Leiðtogar 20 stærstu iðnríkja heims annars vegar og sjö stærstu iðnríkja heims hins vegar héldu símafundi í dag og Evrópski seðlabankinn bjó sig undir opnun markaða á Nýja-Sjálandi, fyrsta markaðnum sem opnar í Asíu í kjölfar lækkunar lánshæfseinkunnar Bandaríkjanna á föstudag.
Hlutabréfavísitalan í Ísrael lækkaði um 7% í viðskiptum dagsins og hlutabréfavísitölur í Mið-Austurlöndum lækkuðu sömuleiðis nokkuð. Menn óttast að þetta sé fyrirboði þess sem koma skal þegar markaðir í Evrópu og Bandaríkjunum opna.
„Þar til markaðir opna á mánudag verða raunveruleg áhrif lækkunar lánshæfiseinkunnarinnar ekki að fullu þekkt,“ segir í spænska dagblaðinu El País. „Allt bendir til „svarts mánudags“ sem mun auka enn þrýstinginn á evruna.“
Fréttir af lækkuninni bárust í lok gríðarlega slæmrar viku á verðbréfamörkuðum. Ótti við kreppu á heimsvísu, sem margir telja geta orðið verri en þá sem varð árið 2008, varð til þess að stjórnmálamenn um víða veröld frestuðu sumarleyfum sínum.
Fulltrúar G7-ríkjanna - Bretlands, Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Japan og Bandaríkjanna - ítreka mikilvægi þess að ráðherrar tali sig saman um leiðir til þess að koma á stöðugleika, að því er japanska fréttastofan Kyodo News greinir frá.
Fréttaveita Dow Jones greinir frá því að stjórnarmenn Evrópska seðlabankans hafi um helgina fundað vegna fyrirhugaðra inngripa í markað með spænsk og ítölsk ríkisskuldabréf. Talsmaður seðlabankans vildi ekki staðfesta þetta þegar eftir því var leitað, en forsvarsmenn bankans hafa ekkert viljað gefa upp um áform sín.
Ávöxtunarkrafa á ítölsk ríkisskuldabréf rauk upp í síðustu viku og lántökukostnaður þar með. Það skýrist af því að fjárfestar draga í efa getu landsins til þess að standa undir skuldabyrði sinni - um 120% af landsframleiðslu - sem og því að hagvaxtarhorfur eru slæmar og staðan í stjórnmálum landsins ótrygg.
Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, sagði löggjafarvaldið koma saman fyrr en áætlað var til þess að koma í gegn breytingum sem ætlað er að takast á við vandann. Á meðal breytinganna er stjórnarskrárákvæði sem leggur bann við hallarekstri ríkisins.
Olli Rehn, framkvæmdastjóri efnahags- og gjaldeyrismála Evrópusambandsins, fagnar áformum Ítala og segir það mikilvægt að Ítalir ávinni sér traust markaða á ný.
Spánverjar tilkynntu um helgina áform um að auka tekjur ríkissjóðs um tæpa fimm milljarða evra í því skyni að draga úr hallarekstri. Fjármálaráðherra landsins, Elena Salgado, gagnrýndi við sama tilefni Evrópska seðlabankann. Hann þyrfti að rækja það hlutverk sitt að koma á stöðugleika á skuldabréfamarkaði.
Greiningaraðilar hafa gagnrýnt seðlabankann fyrir að grípa ekki inn í markað með spænsk og ítölsk ríkisskuldabréf í síðustu viku. Bankinn svarar því til að stjórnvöld landanna verði sjálf að sýna djörfung og ávinna sér traust með þeim hætti.
Evrópski seðlabankinn er síðasta varnarlína evrusvæðisins þar sem fjárfestar trúa því ekki lengur að stjórnmálamenn hafi trúverðuga áætlun til þess að taka á vandamálum Spánar og Ítalíu, segir Will Hedden, miðlari hjá IG Index.