Verslunareigendur og íbúar í Tottenham-hverfi í norðurhluta London vinna nú hörðum höndum að því að hreinsa stræti og torg eftir óeirðir næturinnar. Götur eru þaktar glerbrotum og kveikt var í fjölda bíla og bygginga.
Átta lögreglumenn liggja nú á sjúkrahúsi eftir átökin og slökkviliðsmenn eru enn að störfum.
Upphaflega var um friðsöm mótmæli að ræða vegna þess að lögregla skaut 29 ára gamlan mann, með þeim afleiðingum að hann lést. Þau snerust fljótt upp í andhverfu sína og var hverfið eins og vígvöllur.