Öldungadeildarþingmenn í Bandaríkjunum keppast nú við að skella skuldinni vegna lækkunar lánshæfiseinkunnar landsins hver á annan.
Standard & Poor's tiltóku þráteflið vegna hækkunar skuldaþaks Bandaríkjanna sem eina af meginástæðum lækkunarinnar.
John Kerry, öldungadeildarþingmaður Demókrata, kallaði lækkunina „teboðslækkun“ og vísar þar til teboðs-arms Repúblikanaflokksins. Kerry segir samkomulagið sem náðist í síðustu viku ekki hafa gengið nógu langt þar sem sumir Repúblikanar væru tilbúnir til þess að „skjóta gíslinn.“
„Það sem við þurfum á að halda er að [stjórnmálamenn] hætti þessu rifrildi,“ sagði Kerry í samtali við sjónvarpsstöðina NBC.
Samkomulagið sem náðist, eftir mikið japl, jaml og fuður, felur í sér 2,5 billjóna skuldalækkun á næstu tíu árum. S&P hafði áður gefið það út að þörf væri á 4 billjóna lækkun.
John McCain, öldungadeildarþingmaður Repúblikana, sagði í sama þætti á NBC að Barack Obama, Bandaríkjaforseta, væri um að kenna. Honum hefði ekki tekist að leggja fram skýrt skilgreinda áætlun um hvernig takast ætti á við vandann.
„Ég er sammála því að kerfið okkar er gallað, en það skýrist að miklu leyti af því að forsetinn hefur ekki tekið forystuna,“ sagði McCain.
Hann varði andstöðu teboðs-armsins við aukningu skatttekna og sagði hann gera það í umboði kjósenda sinna. Hann gagnrýndi jafnframt orðræðu Demókrata, sem hafi meðal annars líkt Repúblikönum við hryðjuverkamenn.