Stærðfræðikunnáttan skelfileg

Larry Summers
Larry Summers Reuters

Hagfræðingurinn Larry Summers varar við því að Bandaríkin gætu gengið í gegnum aðra niðursveiflu grípi stjórnvöld ekki til aðgerða til þess að sporna við atvinnuleysi.

Summers, sem var aðalráðgjafi Barack Obama, Bandaríkjaforseta, í efnahagsmálum, segir þrátt fyrir þessa hættu að lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's hafi ekki tekið rétta ákvörðun með því að lækka lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna.

Hann leggur á það áherslu að Bandaríkin muni standa við skuldbindingar sínar. „Ferill S&P hefur verið skelfilegur, og stærðfræðikunnátta þess enn verri,“ sagði Summers í samtali við CNN. Hvað stærðfræðina varðar var Summers að vísa til tveggja billjóna dala villu í útreikningum fyrirtækisins.

En þó villan hafi verið leiðrétt ákvað fyrirtækið að halda sig við lækkunina. Summers segir það skýrast af óánægju með þær lausnir sem stjórnmálamenn hafi komið með.

Summers segir hins vegar að ekki tjói að ergja sig út af S&P. Verkefnið nú sé að örva endurreisn efnahagslífsins og róa eigi að því öllum árum að hækka atvinnustig í landinu.

Hann varði 800 milljarða dala björgunarpakka stjórnvalda árið 2009. „Vissulega er enn hætta á kreppu, en guð almáttugur veit að ef við hefðum ekki farið þá leið væru aðstæður eins og endurtekið efni frá því á fjórða áratugnum,“ og vísar þar til kreppunnar miklu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert