Jacqueline Kennedy taldi að Lyndon B. Johnson, varaforseti Kennedys og hópur auðjöfra frá Texas hefðu verið á bak við morðið á eiginmanni hennar, John F. Kennedy Bandaríkjaforseta í nóvember 1963.
Þetta kemur fram á segulböndum, sem fram að þessu hafa verið geymd í rammgerðu herbergi í Kennedy bókasafninu, en komu fram í dagsljósið fyrir tilstuðlan Caroline, dóttur forsetahjónanna fyrrverandi.
Móðir hennar hafði fyrirskipað að efni þeirra yrði ekki gert opinbert fyrr en 50 árum eftir dauða sinn, en hún lést árið 1994.
Caroline lét bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC böndin í té í skiptum fyrir að stöðin hætti við sýningu sjónvarpsþáttaraðar um fjölskylduna.
Á segulböndunum eru samtöl Jacqueline Kennedy, Jackie, við sagnfræðinginn Arthur Schlesinger, sem þau áttu eftir að Kennedy var ráðinn af dögum, en Schlesinger vann að ævisögu Kennedys.
Meðal þess sem þar kemur fram eru játningar Jackie um ástarsamband sitt við leikarann William Holden og ítalska bílajöfurinn Gianni Agnelli.
Eiginmaður hennar, sem þekktur var fyrir kvensemi, fær sinn skerf á bandinu, en þar staðhæfir ekkja hans að hann hafi átt í sambandi við 19 ára gamla stúlku sem starfaði í Hvíta húsinu.
Fjallað verður um efni segulbandanna í sjónvarpsþætti sem sýndur verður á ABC um miðjan september.