Var undir áhrifum fíkniefna

Anders Behring Breivik
Anders Behring Breivik Reuters

Hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik var að sögn lögreglu undir áhrifum ólöglegra fíkniefna þegar hann framdi árásirnar á Ósló og Útey í Noregi 22. júlí síðastliðinn. Fékkst það staðfest eftir blóðrannsókn sem framkvæmd var skömmu eftir handtöku.

„Ég get staðfest að hann var undir áhrifum ólöglegra fíkniefna. Ég vil þó ekki tjá mig um hvaða fíkniefni var um að ræða,“ segir Paal-Fredrik Hjor Kraby, saksóknari lögreglunnar.

Í greinargerð Breivik, sem telur um 1.500 blaðsíður, kemur m.a. fram að hann hafi notast við vefaukandi stera á tímabili. Haft var eftir lögfræðingi hans, Geir Lippestad, 26. júlí síðastliðinn að Breivik hefði notast við lyf sem m.a. voru til þess fallin að auka styrk hans og þol. 

Segir saksóknari að ljóst megi þykja að Breivik hafi verið á steralyfjum en einnig fundust í blóði hans fleiri ólögleg efni sem ekki er tímabært að greina frá að svo stöddu. 

Að sögn saksóknara er Breivik undir eftirliti og greiningu sálfræðinga sem meta munu sakhæfi hans.

Búist er við niðurstöðum sálfræðinga fyrir fyrsta nóvember næstkomandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka