Kostnaðurinn við komu Benedikts XVI páfa til Spánar hefur sætt mikilli gagnrýni undanfarið í landinu. Eru Spánverjar í miklum fjárhagskröggum og hafa jafnvel prestar tekið undir gagnrýni á kostnaðinn við heimsókn páfa fyrir spænska ríkið.
Á páfi að koma til Madríd hinn 18. ágúst til að vera viðstaddur síðustu fjóra daga á ungmennamóti kaþólsku kirkjunnar en búist er við að milljón manns muni sækja það.
Hafa skipuleggjendur mótsins áætlað að kostnaðurinn nemi um 50-60 milljónum evra fyrir utan kostnað við öryggisgæslu. Í áformum þeirra er gert ráð fyrir að byggt verði tvö hundruð metra langt svið á Cuatro Vientos-flugvellinum þar sem páfinn heldur messu hinn 21. ágúst og það verði skreytt með risastóru tré úr málmi.
Þá verða sett upp hundruð gosbrunna og tuttugu risaskjáir á flugvellinum. Auk þess þarf að setja upp sturtur í opinberum skólum sem notaðir verða til þess að hýsa pílagríma sem koma til Madríd.
Segja skipuleggjendur að ungir pílagrímar standi undir 80% af kostnaðinum og afgangurinn sé fjármagnaður með framlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum.
Hafa gagnrýnendur bent á að fyrirtæki sem styrkja uppákomuna eigi rétt á endurgreiðslu á allt að 80% af því fé sem þeir gefa frá skattinum vegna þess að stjórnvöld lýstu því yfir að æskulýðsdagur kirkjunnar væri viðburður sem almenningur hefði sérstaka hagsmuni af.
Hefur prestaráð 120 presta úr fátækustu söfnuðum Madríd gagnrýnt kostnaðinn fyrir ríkið, sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur skorið grimmt niður til velferðarkerfisins og laun opinberra starfsmanna.