Eldsprengjum var kastað að lögreglustöð í borginni Nottingham í Mið-Englandi í kvöld. Ekki hefur verið tilkynnt um slys á fólki.
Þarna var að verki hópur 30-40 manna. Greiðlega tókst að slökkva eldinn og voru átta handteknir í kjölfarið. Óeirðir eru víða í landinu, en þær hófust í London á laugardagskvöldið með friðsamlegum mótmælum fyrir utan lögreglustöð. Þau fóru fljótt úr böndunum og eru þetta mestu óeirðir í landinu í áratugi. Fremur rólegt hefur verið í London í kvöld.
Miklar skemmdir hafa verið unnar í Manchester í dag og í kvöld. „Þetta eru glórulaus glæpaverk á því stigi sem við höfum aldrei séð áður,“ segir Garry Shewan, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Manchester.
„Þetta ofbeldi, framið af fólki sem er ekki að mótmæla neinu, kastar skugga skammar yfir götur borgarinnar, “segir Shewan. „Þetta eru einfaldlega glæpamenn, sem fara hamförum í kvöld.“
Hann segir ofbeldið og skemmdarverkin hafa „rifið hjartað úr tveimur góðum borgum“ og hvetur samlanda sína til að íhuga með hverjum þeir standi þegar farið verður að huga að handtökum hinna brotlegu.