Borgarstjórinn í Nagasaki í Japan segir að heimsbyggðin verði að snúa sér í auknum mæli að endurnýjanlegum orkugjöfum í stað kjarnorku. Í dag eru 66 ár síðan Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á borgina í lok seinni heimsstyrjaldarinnar.
Segir Tomihisa Taue borgarstjóri að Japanir verði að þróa öruggari orkugjafa eins og sólar-, vind- eða lífmassaorku í kjölfar kjarnorkuslyssins í Fukushima eftir jarðskjálftann og flóðbylgjuna sem reið yfir landið í mars.
„Nú í mars kom alvarleiki slyssins í Fukushima-verinu okkur í opna skjöldu. Sem þjóðin sem hefur reynslu af eyðileggingu kjarnorkunnar höfum við haldið á lofti kröfunni um ekki fleiri Hibakusha!“ sagði borgarstjórinn í friðaryfirlýsingu sinni og notaði japanska orðið yfir fórnarlömb geislunar eftir árásirnar.
„Hvernig hefur það gerst að okkur stafar aftur ógn af óttanum við geislun? Höfum við misst virðingu okkar fyrir náttúrunni? Höfum við ofmetnast af þeirri stjórn sem við höfum sem manneskjur?“
Fyrir slysið í Fukushima uppfyllti kjarnorka um 30 prósent af orkuþörf Japana og áform voru uppi um að auka hlut hennar í 50 prósent fyrir árið 2030. Síðan þá hafa stjórnvöld endurskoðað þau áform.