Á blaðamannafundi sem haldinn var fyrir utan skrifstofur Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands, kom fram að búast mætti við hertum aðgerðum til að hefta óeirðirnar í Bretlandi.
Cameron sagði nauðsynlegt að berjast gegn þeirri óöldu sem gripið hefur landið og að slíkt yrði gert sem fyrst.
Meðal þeirra tækja sem lögreglan fær til að berjast gegn æstum skrílnum eru öflugar vatnsdælur en þær hafa að sögn aldrei verið notaðar áður á meginlandi Bretlands til að berjast gegn mótmælendum. Þær hafa þó verið notaðar áður við mótmæli á Norður-Írlandi.
Að auki hefur breskum óeirðalögreglumönnum verið heimilað að notast við gúmmíkúlur til að dreifa mannfjöldanum. Slík skotfæri eru þekkt víða um heim við aðgerðir sem þessar og eru taldar að mestu skaðlausar.