Minna en helmingur Dana stundar vinnu. Þetta sýna nýjar tölur frá atvinnumálaráðuneyti Danmerkur, en í upphafi ársins voru 2,7 milljónir Dana á vinnumarkaði, eða um 49% af 5.560.000 íbúum landsins.
Þeir sem ekki eru útivinnandi eru meðal annars atvinnulausir, lífeyris- og örorkubótaþegar, börn og námsmenn.
„Þessi þróun er óheillavænleg,“ segir formaður samtaka atvinnulífsins í Danmörku, Jørgen Søndergaard í samtali við vefsíðu danska dagblaðsins Jyllands-Posten. Hann telur að fyrir þessu séu einkum þrjár ástæður.
Í fyrsta lagi séu fleiri sem gangi menntaveginn og þeir mennti sig meira, en áður þekktist. Í öðru lagi séu núna þeir stóru árgangar, sem fæddust eftir heimsstyrjöldina síðari, að komast á eftirlaun.
Og í þriðja lagi fjölgi þeim Dönum sem byggja afkomu sína á bótum og lífeyri frá hinu opinbera. Það er þessi hópur, sem veldur stjórnvöldum mestum áhyggjum, að mati Søndergaard.
„Það eru um 430.000 vinnufærir Danir á besta aldri sem ekki eru á vinnumarkaði, heldur lifa á bótum. Það er krefjandi verkefni fyrir stjórnmálamenn að virkja þetta fólk og að hindra, að fleiri bætist í þennan hóp,“ segir Søndergaard.
Hann hvetur ennfremur til þess að gerðar verði breytingar á SU-styrkjakerfinu svokallaða, til þess að námsmenn ljúki námi sínu fyrr.
Atvinnumálaráðherra landsins, Inger Støjberg, varar í þessu sambandi við því að það séu takmörk fyrir þeim byrðum sem velferðarsamfélagið getur borið.
„Það getur ekki gengið til lengdar að við höfum gert samfélagið okkar á þann veg að minna en helmingur borgaranna sé á vinnumarkaði.“ segir hún. „Við verðum að koma með lausnir, þannig að það borgi sig að vera á vinnumarkaði, en ekki á bótum.“