Vilja gefa ungum börnum einkunnir

Myndin er úr myndasafni og tengist ekki efni fréttarinnar.
Myndin er úr myndasafni og tengist ekki efni fréttarinnar. Ásdís Ásgeirsdóttir

Íhaldsflokkurinn og Danski Þjóðarflokkurinn vilja að grunnskólanemendur fái einkunnir frá og með 1. bekk. Talsmenn flokkanna telja að með því aukist metnaður og fagmennska í skólastarfi og að það hvetji nemendur til dáða. Einkunnir eru almennt ekki gefnar í dönskum grunnskólum fyrr en nemendur eru komnir í 8. bekk, sem samsvarar 7. bekk hér á landi.

Frá þessu segir á vefsíðu danska dagblaðsins Berlingske Tidende.

Þar segir að flokkarnir þrýsti nú á Troels Lund Poulsen, menntamálaráðherra landsins, að íhuga þessar tillögur. „Einkunnir eiga þátt í að auka námfýsi nemenda, “ segir Carina Christensen, talsmaður Íhaldsflokksins.

Hún segist hafa áhyggjur af því að dönsk ungmenni dragist aftur úr jafnöldrum sínum í öðrum löndum,  sér í lagi börnum í Asíu.

Niels Egelund, prófessor við Uppeldisháskólann í Danmörku, Danmarks Pædagogiske Universitetsskole (DPU), segir að með því að gefa einkunnir sé auðveldara að fylgjast með framförum barnanna. En mikilvægt sé, að þær séu ekki bara tölur á blaði, heldur þurfi að ræða þær.

Í drögum að nýrri skólaskipan liggur fyrir að einkunnir verði gefnar frá og með 6. bekk, sem samsvarar 5. bekk hér á landi.

Danski jafnaðarmannaflokkurinn vill ekki gefa nemendum einkunnir fyrr á skólagöngunni en gert er í dag og segir að einkunnir geti haft afar neikvæð áhrif á þroska ungra barna.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert