Stuðningsmenn Muammar Gaddafis, söfnuðust saman í Tripoli til að mótmæla loftárás sem NATO gerði á þorp austur af Tripoli. Stjórnvöld segja að árásin hafi drepið fjöldann allan af óbreyttum borgurum, en NATO hefur gefið það út að um lögmætt skotmark hafi verið að ræða.
Hópurinn safnaðist saman fyrir utan ungverska sendiráðið í Tripoli, sem jafnframt er eina evrópska sendiráðið sem hefur aðsetur í Líbýu eftir að átökin hófust, og biðluðu til Sameinuðu þjóðanna að grípa inn í.
Fulltrúar hópsins afhentu fulltrúa sendiráðsins bréf þar sem bandamenn Gaddafis biðja Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, um hjálp.