Talið að 168 börn séu látin

Predator flugvél á sveimi yfir vígvöllum.
Predator flugvél á sveimi yfir vígvöllum. Reuters

Samkvæmt niðurstöðum sjálfstæðrar rannsóknar á vegum Stofnunar rannsóknarblaðamanna í Lundúnum sem birt var nýverið, hafa 168 börn látist í loftárásum ómannaðra flugvéla í Pakistan. Loftárásunum var ætlað að granda skotmörkum sem tilheyra liðsmönnum talíbana og al-Kaída þar í landi.

Í loftárásunum er einkum um að ræða hinar svonefndu Predator-flugvélar en þær eru ómannaðar og þeim fjarstýrt af mönnum innan Bandaríkjahers og bandarísku leyniþjónustunnar CIA.

Segja rannsakendur m.a. að 291 loftárás með slíkum flugvélum hafi átt sér stað í Pakistan frá árinu 2004. Talið er að í embættistíð Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, hafi ein loftárás verið framkvæmd fjórða hvern dag.   

Segja rannsakendur að flestir hinna látnu, sem teljast á bilinu 2.292 til 2.863 einstaklingar, hafi verið lágtsettir liðsmenn. Einungis hafa þó 126 þeirra verið nafngreindir opinberlega.

Að sögn búa rannsakendur yfir öruggum heimildum þess efnis að a.m.k. 385 óbreyttir borgarar hafi fallið en grunur leikur á að sú tala gæti verið nærri 775. Af þeim eru á bilinu 164 til 168 börn.

Yfirvöld í Washington í Bandaríkjunum hafa neitað svo hárri tölu fallinna borgara og hafa ítrekað sagt að loftárásir sem framkvæmdar eru með Predator-flugvélum séu nauðsynlegar í baráttunni við al-Kaída og talíbana.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert