Rússneski auðkýfingurinn, Mikhail Prokhorov, vill að Rússar leggi niður rússnesku rúbluna og taki upp evru í staðinn. Rússnesk stjórnvöld ættu að gleyma hugmyndum um að rúblan gæti orðið að alþjóðlegum gjaldmiðli sem ríki fjárfestu í til þess að eiga í gjaldeyrisvarasjóðum sínum. Þetta kemur fram á fréttasíðu Moskow Times í dag.
Prokhorov, sem ákveðið hefur að taka þátt í rússneskum stjórnmálum með stofnun hægrisinnaðs stjórnmálaflokks og hefur lýst áhuga sínum á að verða forsætisráðherra Rússlands, segist vilja sjá „stærri Evrópu“ sem teygði sig frá Lissabon, höfuðborg Portúgals, til Vladivostok austast í Síberíu.