„Enga samkynhneigða í herinn"

Michele Bachmann
Michele Bachmann Reuters

Bandaríski fulltrúardeildarþingmaðurinn Michele Bachmann segir að hún myndi endurvekja bann við því að samkynhneigðir geti gerst hermenn í bandaríska hernum.

Bachmann sækist eftir því að vera frambjóðandi repúblikana í forsetakosningunum á næsta ári og fékk flest atkvæði í könnun flokksins í Iowa í gær.

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur staðfest lög um að samkynhneigðir geti starfað í hernum án þess að þurfa að leyna kynhneigð sinni. Taka lögin gildi hinn 20. september nk. Síðastliðin átján ár hefur sú regla gilt að samkynhneigðir geti verið í hernum leyni þeir kynhneigð sinni - svokölluð „Ekki spyrja, ekki svara"-stefna.

Bachmann, sem telst til tehreyfingarinnar svonefndu, er hins vegar á öndverðri skoðun. Hún segir í viðtali við CNN-sjónvarpsstöðina í dag að ef hún verði kjörinn forseti þá muni hún breyta lögunum í fyrra horf. Sú regla hafi virkað vel og engin ástæða sé til að breyta henni. Hún tekur þó fram að hún myndi samt leita ráða hjá yfirmönnum hersins. 

Bachmann hefur reitt marga samkynhneigða til reiði í gegnum tíðina en eiginmaður hennar, sem rekur kristilegt ráðgjafarfyrirtæki, býður upp á námskeið þar sem fólk er „afhommað".

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert