Fylgi forseta Bandaríkjanna, Baracks Obama, hefur minnkað jafnt og þétt undanfarnar vikur og hefur ekki mælst jafn lítið og nú frá því hann var kjörinn forseti fyrir tæpum þremur árum.
Í könnun sem Gallup birti í kvöld mældist fylgi hans í fyrsta skipti undir 40% en samkvæmt könnuninni eru 39% ánægð með störf hans á meðan 54% eru óánægð. Í frétt Los Angeles Times í kvöld kemur fram að aldrei áður hafi jafn fáir verið ánægðir með störf Obama og nú og jafn margir óánægðir.
Fylgi Obama hefur verið rúmlega 40% það sem af er ári en skaust í 53% skömmu eftir að tilkynnt var um dauða Osama Bin Laden, leiðtoga Al-Queda-hryðjuverkasamtakanna. En fylgið minnkaði jafnt og þétt á sama tíma og deilan um skuldaþak ríkissjóðs harðnaði.
Könnun Gallup var gerð 11.-13. ágúst sl.