Bush varaði Gorbachev við

Mikhail Gorbachev.
Mikhail Gorbachev. Reuters

Mikhail Gorbachev, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, segir að George H.W. Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti, hafi varað sig við árið 1991. Gorbachev segir að Bush hafi sagt honum að gæta að öryggi sínu, en nokkrum vikum síðar gerðu harðlínukommúnistar misheppnaða tilraun til valdaráns.

Þess verður minnst nú í ágúst að 20 ár eru liðin frá þessum atburðum. „Bush hringdi í mig. Hann hafði fengið þessar upplýsingar frá Gavriil Popov, borgarstjóra í Moskvu,“ segir Gorbachev.

Hann segist ekki hafa trúað Bush. „Það eru bara fífl sem ákveða valdarán í miðjum samfélagsbreytingum,“ segir Gorbachev. „Og því miður voru þetta virkileg fífl, “bætir hann við.

Yfirmaður KGB leiddi þessa misheppnuðu byltingu gegn Gorbachec, auk þess var varaforseti landsins í fararbroddi. Gorbachev var hnepptur í stofufangelsi, þar sem hann var í sumarfríi við Svartahaf. Þeir lýstu sig réttmæta valdhafa í Sovétríkjunum.

„Ég hefði aldrei átt að fara í þetta frí,“ segir Gorbachev í dag. „Það voru mistök.“

Valdaránið stóð yfir í þrjá daga og varð til þess að Borís Jeltsín, einn höfuðandstæðingur Gorbachevs, komst til valda. Nokkrum mánuðum síðar liðuðust Sovétríkin í sundur.

Að sögn Gorbachev ætlaðist hann aldrei til þess að Sovétríkin féllu. Hann hefur alla tíð gagnrýnt þá stjórnarhætti sem fóru í hönd undir stjórn Jeltsíns.

„Hann var valdasjúkur,“ segir Gorbachev. „Ég hefði átt að gera hann að sendiherra í einhverju bananalýðveldi.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert